Ég keypti mér nýja myndavél nýlega, í raun fyrstu góðu myndavélina sem ég hef átt: Sony a5000.
Hef verið að nýta mér hana til að taka myndir af naggrísunum mínum og öðrum hlutum svo ég gæti látið flottar myndir fylgja þeim greinum sem ég skrifa um naggrísi, vegna þess að ég hef verið að búa til lítið svæði hérna á vefsíðunni minni með góðum upplýsingum um þessi gæludýr. Endilega skoðið það ef þið hafið áhuga á naggrísum. En hef verið frekar upptekin á heimilinu við að reyna gera allt á sama tíma: taka til, skrifa um naggrísi, þvo þvottinn á fullu. Það uppgötvaðist nefnilega lús/flösu-maur á naggrísunum sem ég hef verið að passa síðan 2. mars, og þurfti að sótthreinsa allt og þrífa áður en ég gaf þeim meðal til að drepa þessi sníkjudýr, setti þær einnig í bað til þess að vera alveg örugg. Ætla mér að skrifa nánar um það í öðrum pósti bráðlega, og auðvitað munu vera flottar myndir.
Smá fréttir af þessum nýju húsgestum:
Zappa (karlinn) er með of mikið kalk í líkamanum, er ennþá að pissa hvítu síðan ég fékk hann í hendurnar, og ég hef varla verið að gefa honum þurrmat (sem er ráð til þess að takmarka kalk-inntöku). Þarf bara drekka miklu meira vatn en hann hefur verið að gera, vona að það skoli það úr honum áður en hann mögulega fer að fá nýrnasteina. Það fylgdi þeim fullt af gæludýra nammi, gæti verið sökudólgurinn: annað þeirra var í raun ískex með ávaxta-kremi í miðjunni og inniheldur mjólk og sykur, rosa gott á bragðið fannst mér fyrir utan fituna sem festist í gómnum á manni. Hitt voru einskonar jógúrt-dropar. Ég vil minna fólk á að vera ekki að gefa naggrísum svona, þetta er oft hæft til að vera nammi handa mannfólki.
Fann síðan lús/flösu-maur á honum, sem var ekki spennandi uppgötvun vegna þess það þýddi að allir 5 grísirnir væru núna mögulega með lús. En ég fékk að vita að lyfið sem maður notar til þess að aflúsa þær er hægt að taka með heim og gera þessa meðferð sjálf, alveg snild. Samt tók ég sökudólginn með mér til að læknirinn gæti staðfest hvaða lyf ég þurfti. Hún lét mig hafa þessar krúttlegu litlu 15mg túpur sem virkuðu á tvo grísi hver, setur það bara í hársvörðinn á hnakkanum. Þurfti samt að vikta alla naggrísina og fattaði að hún Rósa mín er heilum 200g léttari en restin og þurfti dropanum færri af lyfinu.
Það er síðan skrítinn vöxtur á nefinu á einni stelpunni, sem minnir mig bara á einskonar vörtur sem mynduðu lóðrétta rönd á nefinu á henni. Fór auðvitað að rannsaka það á netinu og uppgötvaði að fólk er að kalla þetta "fungal nose stripe" og enginn vissi af hverju þetta birtist. En það var samt hughreystandi að þetta væri ekki smitandi og angrar ekki naggrísinn, þetta bara er þarna og ekkert hægt að gera í því (fólk hefur reynt allskonar hluti og sveppa-lyf).
Fyrir utan þetta þá hafa þeir það alveg æðislega gott. Stelpurnar allar orðnar að bestu vinkonum og strákurinn fær stöku sinnum að hanga með þeim (með ströngu eftirliti auðvitað) sem honum finnst alveg ótrúlega gaman þótt að stelpurnar eru ekki alveg á sama máli. Þær hafa það sjálfsvarnar viðbragð að reyna sprauta smá pissi framan í karlinn þegar hann er of ágengur. Þurfti að búa til smá pissu-vegg til að verja veggfóðrið hjá mér út af þessu. Fjóla var bara allt of tilbúin til að sprauta á hann, gaurinn þurfti ekki einu sinni að koma við hana. En hann var að skemmta sér alveg konungslega og fær ágæta hreyfingu út úr þessu (og stelpurnar þá líka).